Saga:
Dómsmálaráðuneytið gefur út Lögbirtingablað. Það kom fyrst út í prentuðu formi í ársbyrjun 1908, skv. lögum nr. 32/1907 og var þá gefið út einu sinni í viku 2 eða 4 bls. eftir þörfum í stærðinni A4. Síðan hefur Lögbirtingablað verið gefið út í prentuðu formi óslitið til dagsins í dag, nú síðast skv. lögum nr. 64/1943, þar til lög nr. 15/2005 leystu þau af hólmi. Undanfarin ár hefur útgáfan vaxið jafnt og þétt og hefur síðustu árin verið yfir 1200 bls. á ári í brotinu Folio. Í ársbyrjun 2002 var ákveðið að gera blaðið einnig aðgengilegt á netinu og er nú hægt að nálgast þar öll tölublöð sem komið hafa út frá 1. janúar 2001.
Hvað skal birta:
Samkvæmt lögum nr. 15/2005 skal birta í Lögbirtingablaði dómsmálaauglýsingar, svo sem stefnur til dóms, úrskurði um töku búa til opinberra skipta og áskoranir um kröfulýsingar, auglýsingar um skiptafundi og skiptalok þrotabúa, nauðungarsölur, þar á meðal á fasteignum búa sem eru til opinberra skipta, auglýsingar um vogrek, óskilafé og fundið fé, auglýsingar um kaupmála hjóna, lögræðissviptingu og brottfall hennar, lögboðnar auglýsingar um félög og firmu, sérleyfi er stjórnvöld veita, opinber verðlagsákvæði og annað það er stjórnvöldum þykir rétt að birta almenningi.
Áskrifendur:
Vefur Lögbirtingablaðsins er áskriftarvefur, þar sem auglýsingar Lögbirtingablaðsins eru birtar. Áskrifendur geta skoðað og vaktað ákveðna flokka auglýsinga og leitað á vefnum. Lögbirtingablaðið verður áfram aðgengilegt á netinu, án endurgjalds á PDF-sniði. Taka ber fram að réttaráhrif auglýsingar sem birtast í PDF útgáfu geta verið liðin. Þeir sem þess óska geta keypt Lögbirtingablað í prentuðu formi í áskrift eða fengið einstök tölublöð send gegn greiðslu kostnaðar af prentun þeirra og sendingu.
Auglýsendur:
Þeir sem auglýsa í Lögbirtingablaði geta nú útbúið og sent inn auglýsingarnar rafrænt. Þeir fá uppfærða yfirsýn yfir allar auglýsingar sínar hvort heldur í vinnslu, innsendar eða útgefnar. Sækja þarf um aðgang til að senda inn auglýsingar.
Þjónusta:
Notendaþjónusta Lögbirtingablaðs svarar fyrirspurnum og ábendingum varðandi notkun á netútgáfunni og rafræna innsendingu auglýsinga á netfanginu logbirtingabladid@syslumenn.is og í síma 458 2800. Sama á við um þá sem ætla að panta áskrift að Lögbirtingablaði í prentaðri útgáfu.
Tenglar: